2 Samuel 24

1Reiði Drottins upptendraðist enn gegn Ísrael. Egndi hann þá Davíð upp í móti þeim með því að segja: ,,Far þú og tel Ísrael og Júda.`` 2Þá sagði konungur við Jóab og hershöfðingjana, sem með honum voru: ,,Farið um allar ættkvíslir Ísraels frá Dan til Beerseba og teljið fólkið, til þess að ég fái að vita, hve margt fólkið er.`` 3Jóab svaraði konungi: ,,Drottinn Guð þinn margfaldi lýðinn _ hversu margir, sem þeir nú kunna að vera _ hundrað sinnum og láti minn herra konunginn lifa það. En hvers vegna vill minn herra konungurinn gjöra þetta?`` 4En Jóab og hershöfðingjarnir máttu eigi gjöra annað en það, sem konungur bauð. Gekk þá Jóab og hershöfðingjarnir burt frá konungi til þess að taka manntal í Ísrael. 5Þeir fóru yfir Jórdan og byrjuðu á Aróer og borginni, sem er í dalnum í áttina til Gað og Jaser. 6Síðan komu þeir til Gíleað, og til lands Hetíta, í nánd við Kades. Þá komu þeir til Dan, og frá Dan beygðu þeir við í áttina til Sídon. 7Því næst komu þeir til Týruskastala og til allra borga Hevíta og Kanaaníta, fóru síðan til suðurlandsins í Júda, til Beerseba. 8En er þeir höfðu farið um land allt, komu þeir eftir níu mánuði og tuttugu daga til Jerúsalem. 9Og Jóab sagði konungi töluna, sem komið hafði út við manntalið: Í Ísrael voru átta hundruð þúsundir vopnfærra manna vopnbúinna, en í Júda fimm hundruð þúsundir manns. 10En samviskan sló Davíð, er hann hafði látið telja fólkið. Þá sagði Davíð við Drottin: ,,Mjög hefi ég syndgað með því, sem ég hefi gjört. En Drottinn, tak nú burt misgjörð þjóns þíns, því að mjög óviturlega hefir mér til tekist.`` 11Er Davíð reis morguninn eftir, kom orð Drottins til Gaðs spámanns, sjáanda Davíðs, svolátandi: 12,,Far þú og seg við Davíð: Svo segir Drottinn: Þrjá kosti set ég þér, kjós einn af þeim, og mun ég svo við þig gjöra.`` 13Þá gekk Gað til Davíðs, sagði honum frá þessu og mælti til hans: ,,Hvað kýst þú, að hungur komi í þrjú ár yfir land þitt, eða að þú verðir að flýja í þrjá mánuði fyrir óvinum þínum og sverðið elti þig, eða drepsótt geisi þrjá daga í landi þínu? Hugsaðu þig nú um, og sjá til, hverju ég á að svara þeim, sem sendi mig.`` 14Þá sagði Davíð við Gað: ,,Ég er í miklum nauðum staddur. Látum oss falla í hendur Drottins, því að mikil er miskunn hans, en í manna hendur vil ég ekki falla.`` 15Davíð kaus þá drepsóttina, en hveitiuppskeran stóð yfir, þegar sóttin byrjaði, og af lýðnum frá Dan til Beerseba dóu sjötíu þúsund manns. 16En er engillinn rétti út hönd sína gegn Jerúsalem til þess að eyða hana, þá iðraði Drottin hins illa, og hann sagði við engilinn, sem eyddi fólkinu: ,,Nóg er að gjört! Drag nú að þér höndina!`` En engill Drottins var þá hjá þreskivelli Aravna Jebúsíta. 17Þegar Davíð sá, hversu engillinn drap niður fólkið, þá sagði hann við Drottin: ,,Sjá, ég hefi syndgað, og ég hefi misgjört. En þetta er hjörð mín, _ hvað hefir hún gjört? Lát hönd þína leggjast á mig og ættmenn mína.`` 18Þann dag kom Gað til Davíðs og mælti við hann: ,,Far þú og reis Drottni altari á þreskivelli Aravna Jebúsíta.`` 19Og Davíð fór eftir boði Gaðs, eins og Drottinn hafði skipað. 20Og er Aravna leit upp og sá konung og menn hans koma til sín, þá gekk hann í móti þeim og laut á ásjónu sína til jarðar fyrir konungi. 21Og Aravna mælti: ,,Hví kemur minn herra konungurinn til þjóns síns?`` Davíð svaraði: ,,Til þess að kaupa af þér þreskivöllinn, svo að ég geti reist Drottni altari og plágunni megi létta af lýðnum.`` 22Aravna svaraði Davíð: ,,Taki minn herra konungurinn það, sem honum þóknast, og fórni. Sjá, hér eru nautin til brennifórnar og þreskisleðarnir og aktygin af nautunum til eldiviðar. 23Allt þetta, konungur, gefur Aravna konunginum.`` Og Aravna mælti við konung: ,,Drottinn, Guð þinn, sé þér náðugur!`` 24En konungur sagði við Aravna: ,,Eigi svo, en kaupa vil ég það verði af þér, því að ekki vil ég færa Drottni, Guði mínum, það í brennifórnir, er ég hefi kauplaust þegið.`` Síðan keypti Davíð þreskivöllinn og nautin fyrir fimmtíu sikla silfurs.
Copyright information for Icelandic